Meistaramót 15-22 ára fór fram 15.-16. febrúar í Laugardalshöllinni. HHF átti tvo keppendur á mótinu sem var mjög fjölmennt og greinilegt að frjálsar íþróttir eru í mikilli sókn á landsvísu. Tryggvi Sveinn Eyjólfsson keppti í þrem greinum og Victoría Rós Sæmundsdóttir í sex greinum. Tryggvi bætti sinn besta tíma í 60 metra spretthlaupi er hann hljóp á 7.76 sek sem er næst besti tími HHF innanhúss í flokki 17 ára og eldri. Tryggvi nældi sér í bronsverðlaun í 60 metra grindahlaupi á tímanum 9.20 sek og var nærri búinn að bæta eigið héraðsmet sem er 9.17 sek. Victoría setti tvö héraðsmet á mótinu. Annað átti hún fyrir í 300 metra hlaupi en hún stórbætti það um nærri 3 sek en nýja metið er á tímanum 53.67 sek. Hitt héraðsmetið setti hún í þrístökki þegar hún bætti metið um 14 cm þegar hún stökk 8.55m.
Við óskum þeim innilega til hamingju með frábæran árangur á mótinu.
Keppendur 11 og 12 ára kepptu í fjölþrautar fyrirkomulagi þar sem keppt er í fimm greinum og fá iðkendur stig fyrir þann árangur sem þau ná í hverri grein og í lokin er allt lagt saman og sá sem stendur efstur hlýtur sæmdarheitið Íslandsmeistari í fjölþraut. Einnig er veitt viðurkenning fyrir 10 efstu svo það er eftir miklu að keppa að komast í topp 10 á Íslandi í sínum aldursflokki. HHF var með 7 keppendur í þessum aldursflokkum. Michael Thor Sæmundsson varð í 8. sæti samanlagt í flokki 11 ára drengja, hjá 12 ára drengjum varð Sæmundur Óli Davíðsson í 4.-5. sæti og Óskar Elí Ísaksson í sæti númer 8. Sannarlega glæsilegur árangur hjá þeim og hinum sem kepptu fyrir okkar hönd og enduðu líka mjög ofarlega og sýndu miklar framfarir og bætingar. Spennandi sumar framundan hjá þessum flottu krökkum.
Í flokki 13-14 ára er keppt í hefðbundnum greinum og hlýtur sigurvegari hverrar greinar sæmdarheitið Íslandsmeistari. Við í HHF vorum með 7 keppendur í þessum aldursflokkum.
Frábær árangur vannst á mótinu og fór þar fremstur í flokki Íþróttamaður ársins hjá HHF Daníel Már Ólafsson en hann vann sigur í þrem greinum í flokki 13 ára pilta, ásamt einu silfri og tvö brons. Daníel setti einnig mótsmet í þrístökki þegar hann stökk 9.85 m. Algjörlega frábært mót hjá honum.
Frosti Þór Ásgeirsson varð Íslandsmeistari í hástökki 14 ára pilta. Aðrir keppendur HHF voru með miklar bætingar og nálægt því að komast á verðlaunapall. Þetta er ótrúlega flottur og öflugur hópur sem eftir er tekið. Á þessu móti settu þau samtals 4 héraðsmet. Fanndís Fía Pálsdóttir 12 ára í 400 m, Frosti Þór Ásgeirsson 14 ára í þrístökki og Daníel Már Ólafsson 13 ára í langstökki og þrístökki.
Á þessu móti eru félög að keppa sín á milli um að verða stigahæsta liðið. Keppt er til stiga í hverjum aldursflokki en einnig heildarstig og það lið telst Íslandsmeistari sem stendur hæst.
Við í HHF unnum glæsilegan sigur í flokki 13 ára pilta án þess að eiga möguleika á að keppa í síðustu greininni sem var boðhlaup en þar þarf 4 keppendur. Þessi sigur er einn sá stærsti sem HHF hefur unnið í liðakeppni og erum við ótrúlega stolt af þessum drengjum þeim Daníel Má Ólafssyni og Alexander Nóa Ásgeirssyni fyrir að vinna þetta afrek gegn mikið fleiri andstæðingum.
HHF endaði síðan í 7. sæti í heildarkeppninni af 17 liðum sem er frábær árangur. En árangur kemur ekki af sjálfum sér. Þessi hópur er samviskusamur og duglegur að æfa og það skilar sér. Þeir bæta sem mæta !
Stórmót ÍR var haldið helgina 18.-19. janúar 2025 í Laugardalshöllinni í Reyjavík við frábærar aðstæður. Stórmót ÍR er alþjóðlegt mót og er sérstaklega vandað til verka við framkvæmdina. Auk Íslendinga voru þar voru keppendur frá Færeyjum og Bretlandi.
HHF sendi fjölmennasta hóp keppenda sem héraðið hefur sent á þetta mót eða alls 21 keppandi á aldrinum 6 til 18 ára. Keppendur stóðu sig öll frábærlega og voru mörg persónuleg met slegin. Einnig voru alls 7 ný héraðsmet sett á þessu fyrsta móti ársins og gefur árangur allra sem tóku þátt góð fyrirheit um framhaldið á íþróttaárinu 2025.
Uppskeruhátíð HHF var haldin í Skjaldborgarbíó 15. janúar 2025.
Árið 2024 var mjög öflugt íþróttaár á starfssvæði HHF. Nýjar deildar voru stofnaðar á haustmánuðum í Bogfimi hjá Herði á Patreksfirði og Rafíþróttadeild hjá Íþróttafélagi Bílddælinga ásamt því að haldið var körfuboltamót í Bröttuhlíð á vegum HHF í samstarfi við önnur íþróttafélög á Vestfjörðum sem tókst einstaklega vel og ákveðið að halda það aftur á þessu ári.
Stærsti viðburður ársins var þegar öflugur hópur frjálsíþróttakrakka fór til Gautaborgar í júli að keppa á alþjóðlegu móti. Annars var keppt á 14 frjálsíþróttamótum á árinu 2024. Krakkarnir settu 47 ný héraðsmet innan og utanhúss á árinu og er það alveg ótrúlega mikið afrek miðað við hversu fá þau eru og aðstaðan til æfinga ekki eins og best væri á kosið.
Í knattspyrnu var starfið með hefðbundnu sniði og keppt á öllum þeim mótum sem hægt var eða 6 talsins og svo eigum við marga iðkendur sem spila nánast á hverri helgi frá maí til sept á Íslandsmótinu í knattspyrnu með Vestra frá Ísafirði.
Körfuboltaæfingar hafa verið mjög öflugar síðasta árið og stefnan sett á keppnisferðalag til Stykkishólms núna í mars. Mikill áhugi á körfubolta hjá okkur og þá er mikilvægt að efla hann með því að gera eitthvað skemmtilegt eins og t.d þetta að fara í keppnisferðalag.
Allir iðkendur sem æfðu á vegum aðildarfélaga HHF árið 2024 fengu viðurkenningu og gjöf fyrir þátttökuna á árinu en það voru skærgular HHF húfur, markmiðabók og stressbolti með hvatingarorðum.
Einnig voru veitt hefðbundin verðlaun samkvæmt reglugerð HHF um íþróttaiðkendur.
Eftirfarandi aðilar þóttu skara fram úr á árinu 2024:
Brosbikar
Óskar Elí og Alexandra Líf
Landsmótsmeistarar og Íslandsmeistarar
Sæmundur Óli, Frosti Þór, Daníel Már og Tryggvi Sveinn (Ásgeir veitti viðtöku)
Hástökksbikar
Frosti Þór
Spjótkastsbikar
Frosti Þór
Millivegahlaupsbikar
Alexander Nói
Mestu framfarir í frjálsum íþróttum
Alexandra Líf og Alexander Nói
Besta afrek í frjálsum íþróttum
Utanhúss:
Frosti Þór og Fanndís
Innanhúss:
Daníel Már og Rakel Embla
Frjálsíþróttaiðkendur ársins
Daníel Már og Fanndís Fía
Knattspyrnumaður ársins
Sölvi
Mestu framfarir í knattspyrnu
Sæmundur Óli
Körfuboltamaður ársins
Frosti Þór
Mestu framfarir í körfu
Tómas Bender
Daníel Már er frábær íþróttaiðkandi, með mikla íþróttahæfileika og hefur náð góðum árangri á landsmælikvarða í sinni íþróttagrein. Árangrar hans eru framúrskarandi og sjá þjálfarar miklar bætingar milli ára. Daníel Már hefur mikinn vilja til að verða enn betri íþróttamaður og leggur sig allan fram í að sinna æfingum til þess að gera enn betur en síðast.
Á árinu 2024 var árangur hans eftirfarandi:
Gautaborgarmeistari í kúluvarpi
Tvöfaldur Unglingalandsmótsmeistari
Frjálsíþróttamaður ársins
Besta afrek ársins á Íslandi 12 ára pilta í hástökki, þrístökki og kúluvarpi
Annað besta afrek ársins á Íslandi 12 ára pilta í 60m hlaupi
Ný rafíþróttadeild hefur verið stofnuð innan ÍFB og er gert ráð fyrir að æfingar hefjist 7. janúar fyrir 12 ára og eldri.
Deildin er með æfingahúsnæði við Hafnarbraut 10 í húsnæði Arctic fish. Skráning er í gegnum abler.
Ný bogfimideild hefur verið stofnuð innan ÍH. Dagana 18.-19. desember kom Bogfimisamband Íslands með námskeið fyrir þjálfara ásamt kynningu fyrir börn og fullorðna.
Vel var mætt á kynninguna og munu æfingar hefjast í janúar. Skráning verður opnuð fljótlega og í gegnum abler.
Jólamót HHF í frjálsum innanhúss var haldið í Bröttuhlíð 28. desember 2024. Fyrirkomulagið var með svipuðum hætti og undanfarin tvö ár en 9 ára og yngri voru fyrir hádegi og 10 ára og eldri eftir hádegi. Mótið gekk mjög vel fyrir sig og stóðu krakkarnir sig einstaklega vel. Um 20 iðkendur tóku þátt og er það fjölgun á milli ára. 12 ný héraðsmet voru sett á mótinu og er greinilegt hversu mikið þeim fer fram á milli ára.
Yngri hópurinn spreytti sig í þrautabraut þar sem hefðbundnar greinar voru prófaðar og allir fengu þátttökupening í verðlaun. Í eldri hópnum var keppt í langstökki og þrístökki án atrennu, hástökki, kúluvarpi, skutlukasti og langhlaupi. Veitt voru verðlaun fyrir þrjá efstu í hverri grein.
Einnig gaf Orkubú Vestfjarða, einn af samstarfsaðilum HHF, öllum sem tóku þátt á mótinu íþróttapoka að gjöf og þökkum við þeim kærlega fyrir veittan stuðning.
ÍSÍ og UMFÍ leita að sextán hæfileikaríkum og metnaðarfullum einstaklingum með brennandi áhuga á íþróttastarfi á Íslandi til að taka þátt í að byggja upp öflugt starf íþróttahéraða á öllu landinu.
Starfsmennirnir verða staðsettir á átta svæðastöðvum um allt land en tveir starfsmenn verða á hverri stöð.
Horft er til þess að starfsmennirnir sextán muni vinna saman sem einn þar sem styrkleikar og hæfileikar hvers og eins verða nýttir.
Starfsfólk svæðastöðva tekur þátt í að skapa tækifæri og þróa árangursríkt íþróttaumhverfi fyrir börn - og ungmenni, fá tækifæri til að vinna að fjölbreyttum verkefnum sem miða að því að hámarka tækifæri barna og ungmenna til íþróttaiðkunar.
Starfsemi svæðastöðva byggir á teymishugsun þar sem samvinna, fagmennska og framsækni í sterkri liðsheild er grundvallaratriði.
Laugardaginn 9. mars 2024 fór fram 45. Héraðsþing HHF á Vegamótum á Bíldudal. Þingið fór vel fram og sköpuðust góðar umræður. Vakti Birna Hannesdóttir, formaður HHF, athygli á því í skýrslu stjórnar, að mikilvægt væri að skoða aðstöðumál til íþróttaiðkunar á svæðinu og gera úttekt til þess að hægt sé að móta stefnu til framtíðar með sveitarfélögunum með úrbótum.
Jóhann Steinar Ingimundarson formaður UMFÍ og Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ voru gestir á fundinum og veittu þeir heiðranir til félagsmanna okkar sem sjá má fyrir neðan.
Allir stjórnarmeðlimir buðu sig fram áfram og var það samþykkt. Fundargerð og öll skjöl fundar má finna hér.
Silfurmerki ÍSÍ - Björg Sæmundsdóttir
Björg hefur setið í stjórn HHF og hefur einnig starfað til margra ára fyrir Íþróttafélagið Hörð og fyrir Golfklúbb Patreksfjarðar. Hún er starfandi formaður GP í dag og hefur setið í stjórn síðan 2007. Hún er ötull talsmaður golfíþróttarinnar á svæðinu og hefur unnið óeigingjarnt starf til þess að byggja upp íþróttina á svæðinu. Björg hefur verið óslitið frá unga aldri viðloðandi íþróttastarfið á svæðinu fyrst sem keppandi, svo foreldri og alla tíð gengt stjórnarstöðum fyrir íþróttafélagið sitt. Björg er ekki bara flínkur golfari heldur sér hún um að halda golfvellinum í sem bestu standi og er hún oft fram á nætur að gera völlinn kláran fyrir næsta dag.
Gullmerki ÍSÍ - Margrét Brynjólfsdóttir
Magga starfaði í stjórn Íþróttafélagsins Harðar á Patreksfirði í 16 ár og hélt starfinu gangandi með miklum sóma. Hún var formaður meirihluta þess tíma. Hún tók einnig við sem formaður Hrafnaflóka eftir að hún hætti sem formaður ÍH en þurfti frá að hverfa vegna persónulegra aðstæðna. Hún hefur spilað stóran þátt í íþróttastarfinu á svæðinu. Magga barðist líka fyrir bættri aðstöðu til æfinga og keppni og þau mannvirki standa enn fyrir sínu.
Starfsmerki UMFÍ - Ásdís Guðjónsdóttir, Guðrún Helga og Valgerður Jónasdóttir, langstökks þríeykinu
Ásdís, Gunna Helga og Vala eru hluti af því sem við köllum langstökks þríeykið. En þær unnu á öllum frjálsíþróttamótum í langstökkinu til margra ára. Þær hafa staðið vaktina og verið ómetanlegur stuðningur við frjálsíþróttastarf Hrafna-flóka. Keppendur Hrafna-flóka tengja góðar minningar gagnvart þeim. Röggsemi, hvatning og örugg framkvæmd langstökks í höndum þeirra þriggja.
Gullmerki UMFÍ - Heiðar Ingi Jóhannsson
Heiðar hefur unnið ötult starf á vegum íþróttahreyfingarinnar á sunnanverðum Vestfjörðum. Hann var einn af þeim sem endurreistu Héraðssambandið HHF árið 1980. Hann hefur setið í varastjórn og aðalstjórn HHF frá þeim tíma. Hann hefur einnig setið í stjórn UMFT og GBB og hann hefur þar tekið sæti formanns í báðum félögum. Hann situr enn í varastjórn HHF og er formaður GBB. Hann hefur áður fengið starfsmerki UMFí árið 1997 fyrir að hafa starfað í þágu íþrótta í 17 ár og nú eru árin orðin 44 og hann er enn að.
Meistaramót 11-14 ára fór fram 10.-11. febrúar 2024. Við erum aftar stolt af öllum keppendum en við vorum með 13 þátttakendur skráða á mótið, hinsvegar forfölluðust tveir vegna veikinda á seinustu stundu. Fengum við mikið hrós og athygli fyrir fjölda þátttakenda en við vorum meira að segja fleiri en UFA frá Akureyri.
Við áttum þrjá keppendur í topp tíu í 11 og 12 ára flokkum í fjölþraut. Nokkra í toppsætum í greinum og margir persónulegir sigrar, það er akkúrat það sem við viljum sjá, bætingar á milli móta. Í stigakeppninni var HHF í 8. sæti af 17 þátttökuliðum sem telst mjög góður árangur miðað við lítið lið.
Áfram HHF !!
HHF var með 10 keppendur á Stórmóti ÍR 20.-21. janúar og stóðu þau sig öll frábærlega. Miklar bætingar voru hjá krökkunum og við erum svo stolt af þeim öllum. Fyrst og fremst sigur að mæta til keppni, það krefst hugrekkis að mæta í stóru höllina og taka þátt.
Framtíðin er björt hjá HHF !!