Í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi er ágætis aðstaða til iðkunar á alls konar íþróttagreinum. Öll þéttbýli hafa vel útbúin íþróttahús, Sundlaugar opnar allt árið á Tálknafirði og Patreksfirði. Völuvöllur Bíldudal er fullbúinn frjálsíþróttavöllur með 400m malarhlaupabraut. Vatneyrarvöllur á Patreksfirði er fallegur grasvöllur með tartan stökk- og kastsvæði. 4 KSÍ sparkvellir eru á svæðinu ásamt strandblaksvelli sem staðsettur er við tjaldsvæði og íþróttamiðstöð í Tálknafirði.

Á svæðinu eru tveir golfvellir. Annar í Vesturbotni við Patreksfjörð og hinn að Hóli við Bíldudal. Vellirnir eru skemmtilegir 9 holu velli í fallegu umhverfi sem gera þá vænlega til heimsóknar. Skotíþróttasvæði er í landi Hlaðseyrar við Patreksfjörð. Er það vel útbúið með skothúsi fyrir riffilbraut ásamt svæði til leirdúfuskotfimi.

Fyrir utan mannvirki býður stórbrotin náttúran upp á marga möguleika til útivistar og heilsubótar. Á teikniborðinu eru heilsustígar sem vonandi koma til með að prýða umhverfi Patreksfjarðar og Bíldudals á næstu árum. Mikið af gönguleiðum eru á svæðinu sem henta fólki á mismunandi getustigum til göngu.

Náttúrulaugar eru víðsvegar á svæðinu. Hæst ber að nefna Pollinn í Tálknafirði, sundlaugina í Reykjafirði, sundlaugina við Brikimel á Barðaströnd og Hellulaug við Flókalund á Barðaströnd.

Frjálsíþróttavöllur

Völuvöllur

Inni í botni Bíldudals er Völuvöllur. Völuvöllur er í fullri stærð með 400m hlaupabraut. Völlurinn er nefndur eftir Bílddælingnum Völu Flosadóttur sem sleit barnsskónum – gaddaskónum – á þessum velli við Bíldudal. Völlurinn var á sínum tíma reistur fyrir tilstilli Íþróttafélags Bílddælinga. Haustið 1985 var hafist handa við að tyrfa völlinn. Þegar nær dró sumri varð ljóst að völlurinn yrði ekki tilbúinn í tæka tíð því knattspyrnutímabilið var í þann mund að hefjast. Var þá brugðið á það ráð að hringja í Hjálparsveit skáta í Kópavogi. Skátunum var boðið gull og grænir skógar, heilar 50.000kr, til að koma og vinna heilan dag frá morgni til kvölds. 19 skátar mættu á svæðið og kláruðu málið í samstarfi við aðra sjálfboðaliða á svæðinu. Árið eftir hófust svo framkvæmdir við hlaupabrautina. Mölin var flutt í gámum með skipafélagi frá Reykjavík í alls fimm ferðum. Völlurinn þótti mjög framúrstefnulegur á sínum tíma og hefur þjónað iðkendum á svæðinu vel í gegn um tíðina. 

Íþróttamiðstöðvar

Íþróttamiðstöðin Brattahlíð

Í desember 2005 var Íþróttamiðstöðin Brattahlíð vígð. Glæsileg Sundlaug er við íþróttamiðstöðinan en hún er úti og úr henni og heitum pottum við laugina er gott úrsýni yfir Patreksfjörð. Þar er líka ágætlega tækjum búinn þreksalur og íþróttahús.

Opnunartímar sundlaugar, líkamsræktar og nánari upplýsingar eru á heimasíðu Vesturbyggðar – smellið hér.


Íþróttamiðstöð Tálknafjarðar

Íþróttamiðstöð Tálknafjarðar býður upp á ýmsa afþreyingu. Fyrir utan íþróttahúsið sjálft er þar 25 metra útilaug, pottar, vaðlaug og rennibraut. Í íþróttahúsinu er svo hægt að nálgast tækjasal.

Sundlaug sú sem nú er notuð var upphaflega byggð árið 1930 og var hún 10×20 metrar. Var hún m.a. byggð fyrir fjárframlag úr sýslusjóði og fóru sundnámskeið fyrir alla sýsluna fram í henni. Sundlaugin var stórlega endurbætt og lengd í 25 metra árið 1987.


Íþróttamiðstöðin Bylta

Íþróttamiðstöðin Bylta á Bíldudal var tekin í notkun í október 2003. Bylta sækir nafn sitt í fjallið sem stendur andspænis þorpinu. Í íþróttamiðstöðinni er íþróttasalur, þreksalur, heitur pottur og gufubað. Umhverfis miðstöðina er tjaldsvæðið á Bíldudal.

Upplýsingar um opnunartíma útisvæðis og líkamsræktar er að finna á heimasíðu Vesturbyggðar – smellið hér.



Golfvellir

Litlu-Eyrarvöllur

Litlueyrarvöllur í Bíldudal er fallega gróinn 9 holu golfvöllur (par 34) í stórbrotnum fjallasal. Golfklúbbur Bíldudals (GBB) var stofnaður árið 1992 og síðan þá hefur aðstaðan byggst upp jafnt og þétt. Félagar í klúbbnum hafa gert upp gamalt íbúðarhús sem er á svæðinu og breytt því í aðstöðu fyrir félagsstarfið. Falleg fjöll verja völlinn fyrir ákveðnum vindáttum og setja þau skemmtilegan svip á umhverfið. 




Vesturbotnsvöllur

Vesturbotnsvöllur er fallegur 9 holu golfvöllur (par 36). Völlurinn er staðsettur 10 km innan við Patreksfjarðarbæ í landi Vesturbotns. Golfklúbbur Patreksfjarðar (GP) var stofnaður árið 1992. Framkvæmdir við völlinn hófust sumarið 1993. Árið 2004 voru miklar framkvæmdir við völlinn og var m.a. sett upp rafmagnsgirðing til að halda búfé frá vallarsvæðinu.  Völlurinn er sérstakur að því leyti að allar brautir liggja annaðhvort að eða frá skálanum og þaðan sjást allar brautir. Töluvert landslag er á vellinum og hann kemur þeim í koll, sem vanda sig ekki.